Saga Mjölnis

Mjölnis lógóMjölnir var stofnaður árið 2005 af nokkrum eldhugum sem allir höfðu brennandi áhuga á bardagaíþróttum. Með stofnun félagsins vildu þeir skapa vettvang hér á landi til að æfa blandaðar bardagaíþróttir (MMA) og brasilískt jiu-jitsu (BJJ). Fram að því höfðu flestir stofnmeðlima Mjölnis stundað æfingar í tveimur aðskildum hópum, annars vegar í hópi sem kenndi sig við hamarinn Mjölni og hins vegar í hópi sem kallaði sig SBGi Ísland. Félagið Mjölnir varð til við samruna þessara tveggja hópa. Nafn félagsins kom frá hópnum Mjölni og hugmyndafræðilegur grunnur og uppbygging æfinga var m.a. sóttur í brunn bandarísku bardagasamtakanna Straight Blast Gym (SBG). 


Aðdragandi stofnunar 

Líkt og fyrr segir liggja rætur félagsins annars vegar hjá hópi sem kynnst hafði æfingatækni SBG og hins vegar innan veggja karatefélagsins Þórshamars. Þann 6. júní 2003 hóaði Jón Viðar Arnþórsson nokkrum félögum sínum úr karatefélaginu Þórshamri saman á æfingu. Haldin var nýstárleg æfing þar sem farið var í fangbrögð og ýmsa lása sem teknir voru upp af kennslumyndböndum af netinu. Æfingin mæltist vel fyrir hjá þeim sem á hana mættu. Fljótlega urðu þessar æfingar reglulegar og lagði Árni Þór Jónsson, einn af karateþjálfurum Þórshamars, til að æfingarnar yrðu kallaðar Mjölnis-æfingar í höfuðið á hamri Þórs þar sem æfingarnar voru í Þórshamri.

Á sama tíma, árið 2003, nýtti Jón Gunnar Þórarinsson sér samfélagsmiðla þess tíma og lýsti eftir fólki sem hefði áhuga á að æfa með honum brasilískt jiu-jitsu. Nokkrir svöruðu kallinu og hófu æfingar, sem haldnar voru í boxhring Hnefaleikafélags Reykjavíkur. Einn af þeim var Bjarni Baldursson en hann mætti á nokkrar æfingar það árið. Í janúar árið 2004 kynntist Bjarni æfingaaðferðum samtakanna SBG af kennslumyndböndum og í kjölfarið hætti hann sem þjálfari hjá Sjálfsvarnarskólanum. Þar hafði hann óskað eftir breyttum áherslum á æfingum og að æft yrði með mótspyrnu í anda SBG en mætt litlum skilningi. Bjarni tók þess í stað að kenna brasilískt jiu-jitsu með Jóni Gunnari og á æfingunum studdust þeir við kennslumyndbönd (VHS og DVD) en einnig bækur.

Árið 2004 fékk Bjarni yfirþjálfara SBG, Matt Thornton, til Íslands til að halda æfingabúðir. Á æfingabúðunum kynnti Matt æfingaaðferðina „Aliveness“ sem útskýrir muninn á þeim bardagaíþróttum sem hafa sannað sig að virki og þeim sem virka mun síður. Í kjölfar heimsóknar hans stofnuðu þeir Bjarni og Jón Gunnar hópinn SBGi Ísland sem útibú samtakanna á Íslandi.

Þeir félagar fóru síðan ásamt fleirum til Bandaríkjanna í æfingabúðir í mars 2005 og kynntust þar m.a. hinum írska John Kavanagh. Í lok æfingabúðanna voru þeir gráðaðir í blátt belti. Í júní voru haldnar æfingbúðir með Matt Thornton á Íslandi og að þessu sinni var Karl Tanswell frá Manchester með í för. Hann var eftir það tengdur Mjölni sterkum böndum. Í ágúst sama kom John Kavanagh til Íslands og hélt æfingabúðir. Þar komst John fyrst í kynni við Gunnar Nelson og varð það upphafið að farsælu samstarfi þeirra en hann hefur verið aðalþjálfari Gunnars Nelson gegnum tíðina. Þá kom Karl Tanswell einnig mikið að þjálfun Gunnars og fleiri Mjölnismanna en Karl lést í janúar 2018.

Námskeiðin sem Matt Thornton hélt á Íslandi vöktu mikla lukku hjá mörgum þótt aðrir, sem heilluðust meira af hefðbundnum bardagaíþróttum, væru ósáttir með þessa „nýjung“. Jón Viðar sótti bæði námskeiðin og kynnti fyrir meðlimum Þórshamars muninn á bardagaíþróttum sem virkuðu og þeim sem virkuðu ekki. Mæltist það misvel fyrir hjá þjálfurum Þórshamars. Veturinn 2004-2005 voru settar upp fastar æfingar í Þórshamri, tvisvar í viku og fyrsti Mjölnisbolurinn leit dagsins ljós. Teiknuð var mynd af hákarli til að hafa á bolnum en hákarlinn var síðar notaður sem merki Mjölnis til margra ára. Einnig var settur í loftið vefur fyrir Mjölni, www.mjolnir.is, og varð spjallhluti vefsins strax mjög vinsæll en nú hefur Facebook tekið við því hlutverki. Mjölnispartý og Mjölnisvídeókvöld voru haldin reglulega og hinn frægi Mjölnisandi var kominn til að vera.

Samgangur milli hópanna jókst og menn skiptu kennslunni á milli sín, t.d. Bjarni, Jón Viðar og Jón Gunnar en jafnframt Árni Ísaksson, Arnar Freyr og fleiri. Árið 2004 dró Jón Viðar, félaga sinn úr landsliðinu í karate, Gunnar Nelson á parketið í Þórshamri. Þeir félagarnir glímdu og Gunnar heillaðist svo af sportinu að hann vildi ólmur byrja að æfa. Gunnar bættist þar með í hóp þeirra sem æfðu blandaðar bardagaíþróttir (MMA) af lífi og sál.

 

Æfingar hefjast hjá Mjölni

Eins og komið hefur fram runnu Mjölnismenn og æfingahópurinn SBGi Ísland saman í eitt félag undir nafni Mjölnis árið 2005. Fyrsta formlega Mjölnisæfing hins nýstofnaða félags var haldin í húsnæði Júdófélags Reykjavíkur þá um haustið.

Stofnendur Mjölnis ákváðu að leigja sal júdófélagsins þrisvar sinnum í viku en það gátu þeir með því að greiða sjálfir í hverjum mánuði ákveðna upphæð til að standa undir rekstri félagsins, leigu á húsnæði og kaup á búnaði. Öll kennsla og vinna í kringum félagið var unnin í sjálfboðavinnu. Æfingarnar voru strax vel sóttar og myndaðist góð stemming í hópnum. Jón Viðar, Bjarni, Jón Gunnar og Arnar Freyr stjórnuðu æfingunum en æft var í anda SBG, æfingarnar voru „lifandi“ og kennt var BJJ, MMA og kickbox.

Þegar leið á haustið ákváðu félagarnir Jón Viðar og Gunnar Nelson að segja skilið við karate en þeir voru þá báðir í íslenska karatelandsliðinu. Gunnar Nelson hafði þá nýlega hlotið hæsta styrk frá ÍSÍ sem veittur hafði verið karatemanni en hann afþakkaði styrkinn þar sem MMA og BJJ átti hug hans allan.

Í desember 2005 setti Jón Viðar saman fyrsta kynningarmyndbandið fyrir Mjölni. Fór það inn á alla helstu samfélagsvefi á Íslandi á þeim tíma. Stöðug aukning var í áhuga á sportinu og Mjölnisæfingarnar voru troðnar af fólki sem vildi læra bardagaíþróttir. Flest önnur félög klóruðu sér í hausnum og skildu ekki þennan áhuga á Mjölni. Hópurinn stækkaði það mikið að stofnfélagar Mjölnis ákváðu að leita að sínu eigin húsnæði.

Formlegar stofnfélagar Mjölnis má sjá hér að neðan en þeir eru: Efri röð frá vinstri: Árni Þór Jónsson, Haraldur Dean Nelson, Jón Viðar Arnþórsson, Gunnar Lúðvík Nelson og Daníel Pétur Axelsson. Neðri röð frá vinstri: Hjalti Daníelsson, Bjarni Baldursson, Daníel Örn Davíðsson, Jón Gunnar Þórarinsson og Arnar Freyr Vigfússon.

Stofnendur Mjölnis

Eftir góða leit að húsnæði fundu Mjölnismenn heppilega aðstöðu að Mýrargötu 2. Húsið var fullkomið fyrir starfsemi Mjölnis þar sem nýlega hafði líkamsræktarstöð verið með starfsemi í húsinu og sturtuklefar, afgreiðsla og salur í toppstandi. Það var hins vegar ekki auðvelt fyrir Mjölnismenn að semja við húseiganda enda áttu fæstir Mjölnismanna fasteign og því ekkert til að veðsetja. Haraldur Nelson steig þá inn og skrifaði upp á tryggingu fyrir Mjölni en einnig þekkti Haraldur eiganda hússins persónulega sem liðkaði verulega fyrir samningaviðræðum. Samningar náðust og var það gríðarlegur léttir fyrir Mjölnismenn á þeim tíma og mikil lyftistöng fyrir félagið.

 

„Gamli“-Mjölnir á Mýrargötu 

Mjölnir við Mýrargötu

Haustið 2006 þegar Mjölnismenn fluttu á Mýrargötuna var allt lagt í að auglýsa félagið svo æfingagjöldin gætu dugað fyrir húsaleigu. Pétur Marel Jónsson hannaði og prentaði fleiri hundruð veggspjöld fyrir Mjölni. Höfuðborgarsvæðinu var svo skipt í nokkra hluta og farið var með plaköt í alla skóla, stofnanir, sjoppur, verslanir, sundlaugar og víðar. Einnig var miðbær Reykjavíkur þakinn í Mjölnisplakötum daginn fyrir Menningarnótt og ýmsa aðra hátíðisdaga svo klúbburinn færi nú ekki fram hjá neinum. Þetta ver gert næstu fjögur árin. Jón Viðar bjó til mikið af myndböndum og Árni Þór tók ljósmyndir og allt sett á netið eins og unnt var. Æfingagjöldin dugðu fyrir leigunni en öll vinna var unnin í sjálfboðavinnu, eins og kennsla, stjórnarstörf, afgreiðsla, auglýsingavinna, þrif og fleira. Á stundaskránni á Mýrargötu var að finna byrjendakennslu í BJJ þrisvar í viku og æfingar þrisvar í viku fyrir lengra komna, æfingar í kickboxi og MMA-æfingar. Kennt var í einum sal.

 

Árið 2007 hélt uppgangur Mjölnis áfram. Gunnar Nelson barðist sinn fyrsta bardaga í MMA og var fyrstur til að gera slíkt undir merkjum Mjölnis en hann barðist fimm sinnum það ár. Sama ár hóf Mjölnir samstarf við Kettlebells Iceland. Jón Viðar tók við formannsstöðu félagsins, sem hafði áður verið gegnt af Arnari Frey. Mikið var lagt uppúr virku félagslífi og góðum anda innan félagsins. Þá þegar voru erlendir þjálfarar farnir að heimsækja Mjölni og brasilíski BJJ-meistarinn Carlos „Portugues“ Eduardo kenndi BJJ í nokkra mánuði hér á landi eða þar til í apríl 2008.

Árið 2008 var ákveðið að Mjölnir myndi stofna keppnislið. Kjartan Páll Sæmundsson gerði logo fyrir hópinn, valið var í keppnisliðið og settar upp sérstakar keppnisliðsæfingar. Liðið fór í keppnisferðir reglulega og sópaði að sér verðlaunum utan landssteinanna. Sama ár kom hin lifandi goðsögn Renzo Gracie til landsins og hélt námskeið í Mjölni. Sú heimsókn kom til með þeim hætti að einn af stjórnarmönnum Mjölnis, Guðjón Svansson, var staddur í Abu Dhabi vegna atvinnu sinnar og komst þar í kynni við vin Renzo í konungsfjölskyldunni. Varð það úr að Renzo Gracie kom til Íslands. Renzo heillaðist sérstaklega af hæfileikum Gunnars Nelson og bauð honum að koma til sín í New York til æfinga sem Gunnar gerði nokkrum mánuðum síðar.

Árið 2009 var æfingasalurinn tvöfaldaður enda stækkaði Mjölnir hratt. Pantað var MMA-búr til að efla æfingaaðstöðuna en það gerði jafnframt Gunnari Nelson kleift að æfa meira hér á landi, en hann hafið dvalið mikið erlendis við æfingar mest hjá John Kavanagh í Dublin, Karl Tanswell í Manchester og Renzo Gracie í New York. Þá var hann sumarið 2008 í þrjá mánuði á Hawaii við æfingar með BJ Penn. Þótt kaupin á MMA-búrinu hafi verið stór fyrir lítið félag þá blómstraði Mjölnir sem aldrei fyrr.

Enn sem fyrr lögðu margir hönd á plóg við að gera félagið sem öflugast og ýmsar breytingar voru gerðar til að efla starfið. Fyrirkomulagi á byrjendanámskeiðunum var breytt, þau stytt og kölluð „101“ og það fyrirkomulag reyndist vel. James Davis frá Bandaríkjunum var ráðinn til Mjölnis til að þjálfa BJJ og MMA, en félagarnir Arnar, Bjarni og Gunnar höfðu kynnst honum í ferð sinni til Bandaríkjanna, og kenndi hann í Mjölni næstu tvö árin.

Mjölnismenn fylltust stolti þegar Gunnar Nelson náði ótrúlegum árangri í keppnum erlendis árið 2009, m.a. á ADCC mótinu á sem haldið var á Spáni í september. Gunnar lenti í 4. sæti í opna flokknum og lagði goðsagnir eins og Jeff Monson og David Avellan að velli, en ADCC er að mörgum talið sterkasta glímumót í heimi. Gunnar var eftir þetta gráðaður í svart belti undir Renzo Gracie og sigraði skömmu síðar á Pan American mótinu í Bandaríkjunum í flokki svartbeltinga. Mjölnir hafði eignast sitt fyrsta svartbelti í BJJ.

Árið 2010 hélt uppsveifla Mjölnis áfram og enn var húsnæðið stækkað. Mjölnismenn fóru á sama ári í samstarf við Hnefaleikafélag Reykjavíkur. Um þetta leyti skildu leiðir með Mjölni og Kettlebells.is. Þá tóku þjálfarar félagsins til við að þróa þrekþjálfun á vegum Mjölnis sem kölluð var Víkingaþrek. Fjölmiðlar gripu það á lofti og birtust viðtöl og greinar í nánast öllum fjölmiðlum landsins um hugmyndina á bak við þrekið. Víkingaþrekið óx hratt og er í dag orðið einn af hornsteinum Mjölnis.

 

Mjölniskastalinn

Mjölnir Seljavegi 2Veturinn 2010-2011 var Mjölnismönnum sagt upp leigunni á Mýrargötu þar sem húseigendur höfðu ákveðið að breyta húsnæðinu í hótel. Hóf því stjórn Mjölnis leit að nýju húsnæði. Á endanum fannst gamli Loftkastalinn á Seljavegi 2. Húsið hentaði mjög vel fyrir starfsemina en sá galli var á gjöf Njarðar að í rýminu var bara einn salur. Því þurfti að finna annan sal í húsinu. Lausnin fólst í því að 400 m2 bókalager á jarðhæð í húsinu var notaður sem annar salur og opnað var á milli rýmanna. Miklar breytingar þurfti að gera á nýja húsnæðinu en lítill tími var til stefnu eða aðeins um mánuður. Eigendur hússins höfðu litla trú á að Mjölnismenn gætu komið öllu þessu í framkvæmd og þurftu því m.a. foreldrar Páls Bergmann að samþykkja tryggingu fyrir því en þau höfðu óbilandi trú á félaginu. Er skemmst frá því að segja að á þessum fjórum vikum sem til stefnu voru gjörbreyttu Mjölnismenn húsnæðinu og strax í byrjun júní 2011 var nýja aðstaðan opnuð, um 1600 m2 að stærð, sem er líklegast einsdæmi í Evrópu. Hin nýja aðstaða var skreytt með nýju lógói Mjölnis, Mjölnishamrinum, en heiðurinn af því á Logi Kristjánsson. Húsnæðið hefur einnig haldið áfram að stækka en í september 2013 bætti Mjölnir við þriðja salnum.

Sumarið 2012 gerði UFC samning við Gunnar Nelson sem síðan barðist, fyrstur Íslendinga, innan sambandsins í september sama ár og eru það ein stærstu skref í sögu íslenskra bardagaíþrótta. Áhugi fjölmiðla á Mjölni var sérlega mikill og Gunnar varð ein stærsta íþróttastjarna okkar Íslendinga. Mjölnir var á allra vörum og ímynd félagsins góð.

 

Ekki bara karlmennskuhormón

Stelpur í MjölniÞrátt fyrir að félagið hafi verið stofnað af hópi karla þá var strax stefnt að því að markaðssetja íþróttina bæði til kvenna og karla. Til að reyna að jafna kynjahlutfallið var stelpum boðið að æfa frítt hjá félaginu fyrstu annirnar sem félagið starfaði. Kvennaflokkar voru á mótum næstum frá upphafi og í kynningarefni félagsins var mikið gert til að sýna að íþróttin væri fyrir bæði kynin. Aukning kvenna jókst þó ekki að verulegu marki fyrr en 101 æfingarnar byrjuðu og Víkingaþrekið hófst. Mjölnir hefur einnig staðið fyrir sjálfsvarnarnámskeiðum fyrir konur og sérstakir kvennatímar hafa verið haldnir til að þjappa kvenkynsiðkendum betur saman. Mjög snemma var byrjað að hvetja konurnar í félaginu til að gefa færi á sér til stjórnarsetu og hefur það gengið vel í seinni tíð.

Félagið gerði fleira til að höfða til fjölbreytts hóps fólks. Byrjað var með æfingar sem hentuðu eldra fólki, fólki í misjöfnu formi, fólki sem var að byggja sig upp eftir meiðsli sem og þá sem vildu fyrirbyggja meiðsli. Þessir tímar voru í fyrstu kallaðir Blítt og létt en seinna var nafninu breytt í Goðaafl.

 

Mjölnir vex og dafnar 

Með auknum vexti félagsins og fjölgun iðkenda hefur verkefnum fjölgað og sömuleiðis starfsfólki Mjölnis. Bæst hefur jafnt og þétt í hóp þjálfara sem og starfsfólks. Jón Viðar hafði frá árinu 2011 gegnt stöðu formanns í fullu starfi en árið 2012 var Haraldur Dean Nelson ráðinn sem framkvæmdarstjóri til að starfa við hlið formanns og Ingunn Unnsteinsdóttir Kristensen tók til starfa haustið 2013 sem aðstoðarframkvæmdarstjóri. Nokkru fyrr höfðu verið skipaðir yfirþjálfarar hjá félaginu yfir hinum ýmsu greinum sem kenndar eru.

Árið 2014 blómstraði keppnislið Mjölnis sem aldrei fyrr og fór oft út það ár. Á árinu fjárfesti Mjölnir í nýju keppnisbúri í fullri keppnisstærð. Sama ár voru einhverjar mögnuðustu bardagaíþróttaæfingabúðir í sögu Íslands haldnar í Mjölni. Um var að ræða rúmlega fjögurra vikna æfingabúðir í MMA undir stjórn John Kavanagh fyrir írska keppnisliðið og keppnislið Mjölnis en þrír af Írunum (Conor McGregor, Cathal Pendred og Paddy Holohan kepptu, ásamt Gunnari Nelson, á UFC í Dublin í júlí sama ár. Skemmst er frá því að segja að þeir unnu allir bardagana sína. Fljótlega eftir þetta bar Gunnar Nelson uppi UFC keppnina í Stokkhólmi og barðist í aðalbardaga kvöldsins. Gunnar tapaði þar naumlega á klofnum dómaraúrskurði en fór heim reynslunni ríkari.

 

Öskjuhlíðin og Mjölnishöllin

Jafnvel þó húsnæðið á Seljaveginum hafi í upphafi verið talið stærra en Mjölnir þyrfti nokkru sinni á að halda fór svo að þröngt var orðið um starfsemina þar enda fjölgaði jafnt og þétt í iðkendahópnum. Og líkt og á Mýrargötu ákáðu eigendur hússins að breyta því í hótel og því var ljóst 2016 að Mjölnir yrði enn og aftur að leita sér að nýju húsnæði. Svo fór að Mjölnir gerði leigusamning við nýja eigendur að húsnæðinu sem áður hýsti Keiluhöllina í Öskjuhlíðinni. Breytingarnar á því húsnæði voru umtalsverðar og dýrar og ljóst var að leita þyrfti að nýjum aðilum til að styrkja rekstur félagsins og fjármagna breytingarnar. Mjölnir hóf síðan starfsemi í glæsilegustu húsakynnum félagins frá upphafi í febrúar 2017. Mjölnishöllin í Öskjuhlíðinni er 3000 fermetrar og án efa eitt glæsilegasta MMA æfingaaðstaða í heimi.

Mjölnishöllin

Nokkrar breytingar áttu sér stað í stjórn félagins og m.a. tók Gunnar Nelson við sem formaður af Jóni Viðari seinni hluta ársins 2017. Gunnar sagði í viðtali um þessar breytingar að eftir standi „sterkur og samstíga hópur sem lítur framtíðina björtum augum. Þetta var erfitt á meðan á því stóð en við sem eftir erum, erum sannfærð um að rétt skref hafi verið stigin. Við erum að horfa fram veginn og erum með áætlun um hvernig við ætlum að haga uppbyggingu félagsins. Meðlimir eru fleiri, tímataflan hlaðnari og stemmningin betri en nokkru sinni fyrr. Þannig að það er á hreinu að við erum að gera eitthvað rétt.“

Þetta reyndust svo sannarlega orð með rentu því Mjölnir hefur haldið áfram að vaxa og dafna og árið 2018 fóru meðlimur yfir 2000 talsins sem gerðu félagi að einu stærsta íþróttafélagi landsins. Enn byggir kennsla í Mjölni á hugmyndafræðilegum grunni um „Aliveness“ og af upprunalegu stofnendum Mjölnis standa Bjarni og Nelson feðgarnir enn vaktina. Auk þeirra báru Þráinn Kolbeinsson og Axel Kristinsson leng vel hitann og þungann af BJJ kennslu en fjölgað hefur í kennarahópnum jafnt og þétt. Þá kemur John Kavanagh reglulega til að kenna hjá félaginu. Nokkrir þjálfarar sinna barna- og unglingastarfi og yogatímar hafa bæst við á stundaskrána.

Gunnar Nelson eftir sigur í UFCGunnar Nelson er sá Mjölnismaður sem vakið hefur hvað mesta athygli enda árangur hans eftirtektarverður. En aðrir Mjölnismenn og -konur hafa verið sigursæl á mótum bæði hérlendis og erlendis. Mjölnir hefur átt þó nokkra Evrópumeistara í BJJ af báðum kynjum og sömuleiðis fjölmarga keppendur sem keppt hafa til sigurs í MMA. Félagið Mjölnir hefur þannig á skömmum tíma náð miklum árangri ef litið er til keppna. En árangur félagsins felst þó ekki síst í því að hjá Mjölni æfir fjölbreyttur hópur fólks, ýmist þrek eða bardagaíþróttir, sér til ánægju, yndisauka og lífsfyllingar og Mjölnisandinn er engum líkur. Segja má því að markmiði stofnfélaga Mjölnis hafi þar með verið náð og vel það – nú er svo sannarlega hægt að æfa blandaðar bardagaíþróttir og brasilískt jiu-jitsu á Íslandi.

MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 (fös. 20:00).

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 min á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði