Um Mjölni

Kynningarmyndband Mjölnis (2015) from Mjolnir MMA on Vimeo.

 

Mjölnir hefur þann tilgang að efla ástundun og keppni lifandi bardagaíþrótta (MMA, BJJ, uppgjafarglímu, box og kickbox) á Íslandi.

Aðalsmerki Mjölnis er að vera með lifandi æfingar (fjallað er nánar um þær hér að neðan) til að komast að því hvað virkar og hvað ekki í raunverulegum aðstæðum. Kennslukerfið er því í sífelldri þróun og alltaf að breytast til hins betra, fólk er farið að ná mun betri árangri og farið að verða betra fljótar núna en fyrir t.d. fimm árum síðan, allt vegna betra kennslukerfis. Hér að neðan er skýrt frá í stuttu máli hvernig kennsluaðferðirnar eru uppbyggðar, en þær eru “lifandi æfingar (aliveness)”, “I method” og “inquiry method”.

Til að hafa æfingu lifandi þarf hún að innihalda atriðin hér að ofan: orku, hreyfingu og tímasetningu.

Hreyfing þýðir að andstæðingurinn er á stöðugri hreyfingu þegar þú reynir að framkvæma bragðið. Í keppni eða sjálfsvörn mun þetta alltaf vera raunin og því er mikilvægt að hreyfing andstæðingsins taki þig ekki úr jafnvægi.

Orka þýðir að andstæðingurinn notar raunsæjar hreyfingar til að streitast á móti, í stað þess að haga sér gjörólíkt því sem búast mætti við frá raunverulegum mótherja. Sem dæmi um þetta þá dregur hann handlegginn til baka eftir högg og heldur honum ekki útréttum í meira en sekúndubrot. Til að nemandi geti lært undir lifandi aðstæðum verður félagi hans þó oft að hugsa eins og þjálfari og hafa jafnvel mótspyrnuna litla í byrjun, en auka hana síðan jafnt og þétt.

Tímasetning þýðir að hreyfingar andstæðingsins eru ekki endilega í föstum takti og er því ekki augljóst hvað hann ætlar að gera næst eða hvenær hann gerir það. Ef þú ert að æfa köst þá reynir einhver að kasta þér og þú reynir að koma í veg fyrir það og kasta sjálfur. Ef þú ert að æfa kýlingar er verið að reyna að kýla þig meðan þú reynir að verja þig og kýla á móti. Slíkar æfingar, þar sem báðir aðilar eru að vinna að því sama, þjálfa rétta tímasetningu. Hún lærist hins vegar ekki á því að æfa fyrirfram ákveðnar hreyfingar eða einhver dauð mynstur – þú gætir alveg eins reynt að læra sund á þurru landi.

Æfingarnar eru þó ætíð tónaðar eitthvað niður, til að enginn meiðist. Hugmyndin er að líkja það vel eftir aðstæðum í götuslagsmálum að fólk æfist í réttum viðbrögðum við þeim, en að hafa ákefðina ekki svo mikla að fólk slasist. Þjálfarinn sér svo til þess að þessu stigi sé haldið. Þessar lifandi æfingar eru að skila ótrúlegum árangri um allan heim, langt umfram margar aðrar aðferðir.

 

I Method

Hið svokallaða “I Method” er útfærsla okkar á “aliveness”. Hvert einasta bragð sem nemendur læra er kennt með þessari aðferð. “I Method” skiptist upp í þrjú stig:

1. Introduce (“Kynna”)

Hér er bragðið æft algerlega án mótspyrnu. Markmiðið er að framkvæma það rétt, eins oft og hægt er, með öllum þeim smáatriðum sem þjálfarinn minntist á. Nemendur eru hvattir til samvinnu og umræðna, svo ef einhver lendir í vandræðum með bragðið koma þau fram hérna.

2. Isolate (“Einangra”)

Hér er bragðið æft með vaxandi mótspyrnu. Tilgangur einangrunar er að gefa nemendum tækifæri til að æfa brögðin undir raunhæfari kringumstæðum, gegn andstæðingi sem er allt annað en samvinnuþýður. Áhersla er þó lögð á að ná tökum á bragðinu og gegnir andstæðingurinn því hlutverki þjálfara, með því að auka á eða minnka mótspyrnu eftir þörfum. Þumalputtareglan er sú að bragðið á að takast í flest skipti en ekki alltaf.

Einangrun er stundum sett upp á þann hátt að iðkandi reynir að ná nokkrum tilteknum brögðum á andstæðingi, meðan andstæðingurinn reynir fyrst og fremst að verjast þeim. Hún fylgir undantekningarlaust kynningu; við tökum aldrei fyrir bragð á kynningarstigi án þess að leyfa nemendum að sannreyna það eftir á. Sjálfsvörn er ekki leikrit.

3. Integrate (“Samþætta/Samblanda”)

Hér er svo glímt (eða “sparrað” á vondri íslensku), með því markmiði að sigra andstæðinginn með einhvers konar lás eða taki. Munur á samþættingu og á einangrun er sá að hér má nota hvaða brögð sem er, ekki einungis þau sem kennd voru í tímanum, og að andstæðingurinn er sjálfur að reyna sitt besta til að sigra þig. Glíman byrjar yfirleitt á hnjánum og er eins konar gamnislagur; engin spörk né kýlingar eru leyfð hjá byrjendum og meiðsl eru sárasjaldgæf. Samþætting er tekin fyrir í lok hvers tíma og fer venjulega þannig fram að teknar eru nokkurra mínútna lotur. Þegar lotu lýkur fá iðkendur stutta pásu, skipta svo um félaga og byrja aftur að glíma.

Tilgangurinn með samþættingu er að bæta sig í BJJ, ekki að vera betri en hinn aðilinn. Þú ert að keppa við sjálfa(n) þig með því hugarfari að auka sjálfsvarnargetu þína. Hver og einn fer á sínum hraða og fylgjast þjálfarar með því að enginn sé að fara of harkalega í leikinn.
Inquiry Method

“Inquiry Method” er sérstök kennsluaðferð sem stundum er beitt samhliða “I Method”. Hún gengur út á það að fólk lærir yfirleitt betur að skilja og leysa vandamál ef það hefur prufað að kljást við þau sjálft, án hjálpar frá þjálfara, áður en það fær svör við þeim. Þessi aðferð er þó yfirleitt ekki notuð á nemendur með minna en 3-4 mánaða reynslu af BJJ/MMA.

Nemendur eru fyrst látnir æfa eitthvað bragð eða stöðu, sem verður þá viðfangsefni kvöldsins. Meðan bragðið er æft, á móti vaxandi mótspyrnu, athuga nemendur hvort þeir séu endurtekið að lenda í einhverjum vandræðum með það.

Að þeirri æfingu lokinni kannar þjálfarinn hvaða vandræði hafi komið upp og verður útkoman þá að verkefni sem hópurinn í heild verður að leysa. Fyrir hvert slíkt vandamál para nemendur sig aftur saman, æfa stöðuna aftur, láta vandamálið koma upp og athuga hvort þeir finna einhverja lausn á því. Eftir fáeinar mínútur er æfing stöðvuð og þeir nemendur sem fundu lausnir látnir kynna þær fyrir hinum. Engu máli skiptir hvort lausnirnar séu fullkomnar; tilgangurinn er að prufa sig áfram og læra af tilraunum.

Þjálfari endar svo með að velja og kenna einhverjar af þessum lausnum og bætir þá inn smáatriðum hér og þar svo lausnin sé tæknilega rétt. Að því loknu prufa allir að æfa þessar lausnir. Þegar hér er komið sögu eru nemendur farnir að æfa brögð sem leysa vandamál sem þeir hafa sjálfir lent í, og meðtaka þeir því brögðin iðulega betur en ella.

MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 (fös. 20:00).

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 min á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði