FULLT HÚS Í FÆREYJUM

FULLT HÚS Í FÆREYJUM
Fullt hús í Færeyjum

Mjölnismenn gerðu svo sannarlega góða ferð til Færeyja í gær þar sem fjórir úr okkar röðum kepptu á MMA keppninni North Atlantic Fight Night. Þetta voru þeir Diego Björn Valencia, Bjartur Guðlaugsson, Þorgrímur Þórarinsson og Björn Lúkas Haraldsson en þeir tveir síðastnefndu voru að stíga sín fyrstu skref í MMA bardaga. Diego keppti í aðalbardaga kvöldsins (main event) sem var atvinnumannabardagi (pro) við Shaun Lomas sem átti 90 bardaga að baki! Hinir kepptu eftir áhugamannareglum (amateur) Alþjóða MMA Sambandsins (IMMAF). Það hefur auðvitað vakið talsverða athygli að íslenskir keppendur í MMA skuli þurfa að erlendis til að keppa í sinni íþrótt en Færeyingar ásamt öðrum nágrannalöndum okkar eru greinilega lengra komnir en við Íslendingar í þessum málum. 

Björn Lúkas steig fyrstu manna í búrið þetta kvöld en hann mætti Dananum Zabi Saeed sem átti 4 áhugamannabardaga að baki. Zabi sótti að Birni Lúkasi strax í byrjun en okkar maður lét að lítið á sig fá en þaulreyndur keppnismaður í öðrum bardagaíþróttum og það þarf meira til að koma honum úr jafnvægi. Björn Lúkas náðri góðri fellu á Zabi og þótt þeim danska tækist að komast á fætur í stuttan tíma tók Björn Lúkas hann jafnharðan niður aftur, tók full mount og lét höggunum rigna yfir hann þar til dómarinn hafði séð nóg og stöðvaði bardaga í fyrstu lotu. Góður sigur með tæknilegu rothöggi (TKO) hjá Birni Lúkasi í sínum fyrsta MMA bardaga.

Næstur í búrið að af okkar mönnum var Bjartur Guðlaugsson en hann á 3 áhugamannabardaga að baki. Bjartur mætti öðrum Dana, Mikkel Thomsen, sem átti 6 bardaga að baki. Þetta var hörku bardagi þar sem Daninn byrjaði vel og náði t.d. tveimur fellum á okkar mann í fyrstu lotu sem þó snéri taflinu sér í við fyrir með því að verjast næstu fellu og koman í mount þar sem Bjartur endaði fyrri lotuna. Bjartur hafði svo nokkra yfirburði í annarri lotu þar sem hann náði góðri fellu og stjórnaði síðan vel í gólfinu en Daninn komst þó á fætur í lok lotunnar. Þriðja lotan var talsvert jafnari en þó hafði Bjartur enn yfirburði og byrjaði lotuna á fellu. Mikkel svaraði fyrir sig og náði Bjarti niður sem náði þó fljótt að snúa því sér í hag. Daninn reyndi seinna aðra fellu en aftur varðist Bjartur og náði yfirburða stöðu í mount og var þar þegar lotunni lauk. Bardaginn fór því í dómaraúrskurð sem var okkar manni í hag.

Þorgrímur Þórarinsson var þriðji okkar manna í búrið en líkt og Björn Lúkas var hann að keppa sinn fyrsta MMA bardaga. Andstæðingur hans var enn einn Daninn, Ola Jacobsen, sem átti 4 áhugamannabardaga að baki. Líkt og Björn Lúkas átti Þorgrímur frábæra frumraun í gær og stýrði bardaganum. Fyrsta lotan byrjaði af miklu krafti, Daninn náði höggi á Þorgrím sem svaraði að bragði með enn betra höggi. Síðan pressaði okkar maður Danann upp við búrið og lenti nokkrum góðum hnéspörkum áðun en hann náði svo Dananum í gólfið og lenti þungum höggum þaðan þegar lotan kláraðist. Önnur lota var eiginlega bara framhald af þeirri þriðju þar sem Þorgrímur hafði einnig yfirburði, tók Ola niður, og eftir að okkar maður hafði lent nokkrum þungum höggum hafði dómarinn séð nóg og stöðvaði bardagann. Okkar maður sigraði því með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu og þegar þarna var komið höfðu allir Íslendingarnir sigrað sína bardaga.

Það var því eðlilega mikill spenningur í mönnum þegar Diego Björn Valencia steig inn í búrið í aðalbardaga kvöldsins og mætti Englendingnum Shaun Lomas sem var með 90 atvinnumannanbardaga að baki! Þess má geta að Diego hafði lokið 2 atvinnumannabardögum og kom eins og áður segir inn í bardagann með tveggja daga fyrirvara. Þó er rétt að geta þess að Shaun gaf eftir einhvern þyngdarmismun til að bardaginn gæti farið fram.

Þetta reyndist hörku bardagi þar sem Diego náði fellu í fyrstu lotu og komst í „mount“ en náði ekki að halda því gegnum sterkum Lomas sem náði að snúa stöðunni við og endaði ofan á í guardinu hjá Diego. Diego tókst þó að standa upp og náði aftur fellu og aftur „mount“ og svo náði hann bakinu á Englendingnum. Þaðan reyndi okkar maður að koma inn hengingu (RNC) en Lomas varðist vel og náði af þrautseigju að snúa sér inní Diego og kláraði lotuna ofaná í guardinu hjá Diego.

Í annarri lotu komst Lomas ofan á eftir misheppnaða fellu frá Diego. Englendingurinn gerði samt lítið í þessari stöðu annað en að ná að halda Diego niðri um tíma. Diego komst þó upp að lokum og en bardaginn fór fljótt aftur í gólfið þar sem Lomas komst aftur ofaná og í þetta sinn alla leið í „mount“. Svo fór þó að Diego náði að snúa stöðunni sér í vil og komst sjálfur í yfirburðarstöðu og reyndi að ná hengingu áður en lotan kláraðist.

Þriðja lotan var með svipuðu sniði og sú fyrsta. Diego komst ofan á og að lokum í „mount“ en eftir að okkar maður hafði lent þungum olnboga gaf sá enski á sér bakið. Diego reyndi enn einu sinni að ná hengingunni og í þetta sinn tókst það. Diego náði að læsa hengingunni og þó Lomas reyndi að þrauka þá neyddist að til að tappa út að lokum. Góður sigur hjá Diego sem er nú 2-1 á atvinnuferlinum en báðir sigrarnir hafa verið eftir uppgjafartök í 3. lotu.

Þessi sigur kórónaði magnað kvöld hjá okkar mönnum sem unnu alla fjóra bardagana sína. Takk Færeyjar!


MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 (fös. 20:00).

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 min á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði