GÓÐ FERÐ Á HEADHUNTERS F.C. Í SKOTLANDI

GÓÐ FERÐ Á HEADHUNTERS F.C. Í SKOTLANDI
Mjölnismenn á Headhunters bardagakeppninni

Í gærkvöldi kepptu fjórir Mjölnismenn í MMA á Headhunters bardagakeppninni sem haldin var í Grangemouth íþróttamiðstöðinni í Falkirk í Skotlandi. Íslensku keppendurnir voru þeir Sigurjón Rúnar Vikarsson, Bjarki Eyþórsson, Björn Lúkas Haraldsson og Bjartur Guðlaugsson, en keppt var undir áhugamannareglum.

Tveir þeir fyrstnefndu voru að keppa sinn fyrsta MMA bardaga en þetta var annar bardagi Björns Lúkasar og fimmti bardagi Bjarts sem var í öðrum aðal bardaga kvöldsins. Í stuttum máli unnu þeir Sigurjón Rúnar, Bjarki og Björn Lúkas sína bardaga en Bjartur varð að sætta sig við tap eftir dómaraúrskurð. Þess má geta að Bjarki og Björn Lúkas unnu sína bardaga mjög örugglega með uppgjafatökum í fyrstu lotu og Sigurjón Rúnar sigraði sinn bardaga á dómaraúrskurði.

Þeir Gunnar Nelson, Hrólfur Ólafsson og Bjarki Ómarsson voru hornamenn fjórmenninganna úr Mjölni.

Sigurjón Rúnar var fyrstur í búrið og mætti heimamanninum Ross Mcintosh en þetta var fyrsti MMA bardagi þeirra beggja. Bardaginn var mjög jafn en ljóst var að Sigurjón var sterkari standandi og lenti mörgum góðum höggum. Ross reyndi að halda Sigurjóni við búrið án þess þó að sækja í felluna og virtist augljóst að hann hafði hvorki vilja til að fara með Sigurjóni í gólfið né að skiptast á höggum við hann standandi. Í hvert sinn sem Sigurjón náði að losa sig frá búrinu var hann að ná í fínum höggum. Svo fór að bardaganum fór í dómaraúrskurð þar sem tveir af þremur dómurum úrskurðuðu Sigurjón sigurvegara.

Sigurjón Rúnar vs Ross Mcintosh

Myndir frá bardaga Sigurjóns
Bardagi Sigurjóns Rúnars á Facebooksíðu Mjölnis

Bjarki Eyþórsson var næstur Íslendinganna í búrið en eins og Sigurjón mætti hann heimamanni í Stu George. Líkt og í hinum bardaganum voru Bjarki og Stu að stíga sín fyrstu spor í MMA keppni. Heimamaðurinn byrjaði bardagann á lágsparki og Bjarki svaraði með tveimur höggum. Stu reyndi annað lágspark en Bjarki var viðbúinn því, greip fótinn og felldi Stu. Bjarki sýndi góða vinnu í gólfinu og ekki skemmdi að hafa Gunnar Nelson í horninu kallandi inn leiðbeiningar. Svo fór að Bjarki náði yfirburðastöðu á bakinu á heimamanninum og sem stóð upp með hann en Bjarki gaf sig ekki, hélt sig á bakinu á Stu og náði að lokum ljónsbananum, hengingunni sem Gunnar er svo þekktur fyrir, og neyddi Stu til uppgjafar eftir 2:20 mín. í fyrstu lotu. Frábær frammistaða hjá Bjarka í hans fyrsta bardaga.

Bjarki Eyþórs vs Stu George

Myndir frá bardaga Bjarka
Bardagi Bjarka á Facebooksíðu Mjölnis

Þriðji Mjölnimaðurinn í búrið var Björn Lúkas Haraldsson en þetta var hann annar MMA bardagi. Björn Lúkas er hins vegar þrautreyndur keppnismaður í brasilísku jiu-jitsu, judo og taekwondo. Líkt og félagar hans mætti Björn Lúkas einnig heimamanni, Georgio Christofi, sem var 1-0 fyrir bardagann líkt og Björn. Skemmst er frá því að segja að Björn Lúkas hafði algjöra yfirburði í bardaganum og hóf hann af miklum krafti með flottu snúningssparki og svo öðru sparki í kjölfarið. Björn Lúkas náði svo flottri fellu, stýrði bardaganum í gólfinu og tók bakið á andstæðingi sínum. Georgio varðist hins vegar vel og náði að lokum að koma Birni Lúkasi af bakinu á sér en þá tók ekki betra við því Björn læsti inn svokallaðri „triangle“ hengingu.  Þá virtist endirinn óumflýjanlegur og þó Georgio verðist fimlega og næði að snúa sér þá lenti hann við það beint inní armlás hjá Birni Lúkasi og gafst upp fyrir því uppgjafartaki þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar af fyrstu lotunni.

Björn Lúkas vs Georgio Christofi

Myndir frá bardaga Björns
Bardagi Björns Lúkasar á Facebooksíðu Mjölnis

Bjartur Guðlaugsson var síðastur Íslendinganna í búrið en Bjartur var með tvo sigra og tvö töp á sínum áhugamannaferli fyrir bardagann. Hann mætti hinum efnilega Skota Hayden Murray í öðrum aðalbardaga kvöldsins en heimamaðurinn var 4-1 á sínum MMA ferli og hafði unnið síðustu fjóra bardaga sína, þar af þrjá á rothöggi eða uppgjafartaki. Það var því ljóst að  á brattann væri að sækja fyrir Bjart. Íslendingurinn var hins vegar hvergi banginn og fyrsta lotan var nokkuð jöfn þar sem Bjartur stýrði henni í byrjun en Hayden náði þó undirtökunum seinni part lotunnar. Önnur lotan var svipuð en Hayden náði þá fellu á Bjart og endaði lotuna í betri stöðu. Sama var uppá teningnum í þriðju lotunni þar sem Hayden náði aftur fellu en Bjartur komst þó næst því að klára bardagann með svokallaðri „guillotine“ hengingu  sem Skotinn náði þó að verjast. Svo fór að bardaginn endaði í dómaraúrskurði sem féll heimamanninum í skaut. Þetta var þó góð frammistaða hjá Bjarti gegn sterkum andstæðingi.

Bjartur Guðlaugsson vs Hayden Murray

Myndir frá bardaga Bjarts
Bardagi Bjarts á Facebooksíðu Mjölnis

Í heild geta Íslendingar vel við unað með þrjár sigra og eitt tap og tveir sigranna komu í fyrstu lotu eftir uppgjafartök.



MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 (fös. 20:00).

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 min á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði