MIKAEL MEÐ BRONS Á HEIMSBIKARMÓTINU

MIKAEL MEÐ BRONS Á HEIMSBIKARMÓTINU
Mikael vs Rajabov á heimsbikarmótinu

Mikael Leó Aclipen er úr leik á Heimsbikarmótinu í MMA eftir að hafa tapað í morgun fyrir Evrópumeistaranum Otabek Rajabov. Frammistaða Mikaels hefur vakið mikla athygli enda hann að stíga sín fyrstu skef í MMA keppni og kemur heim með bronsið frá þessu sterka móti.

Þetta er í fyrsta sinn sem IMMAF (Alþjóðlega MMA Sambandið) heldur heimsbikarmót en sambandið var stofnað 2012 og hefur haldið heimsmeistara- og álfumót (t.d. Evrópumeistaramót) frá árinu 2014. Þess má geta að Ísland var einn af stofnfélögum sambandsins sem var stofnað undir sænskum lögum. Íslendingar hafa þrisvar unnið til gullverðlauna á Evrópumeistaramótum sambandsins en allir þeir keppendur voru frá Mjölni (Sunnar Rannveig og Bjarki Þór 2015 og Egill Øydvin 2016).

Heimsbikarmótið er eins og áður segir ný mótaröð hjá sambandinu og þetta fyrsta fer fram í Prag í Tékklandi. Þeir Mikael Leó og Aron Franz Bergmann (báðir úr Mjölni) kepptu á mótinu fyrir Íslands hönd en Aron féll úr leik í fyrstu umferð á miðvikudaginn í fjaðurvigtinni. Mikael sigraði sterkan Úkraínumann á miðvikudaginn í 16-manna úrslitum í bantamvigt og sigraði síðan Slóvaka í gær eftir frábæra frammistöðu. Í dag mætti hann Otabek Rajabov frá Tajikistan í undanúrslitum mótsins. Rajabov er ríkjandi Evrópumeistari og ósigraður sem áhugamaður í MMA.

Mikael reyndi strax að koma bardaganum niður en Rajabov varðist fellunum vel og náði inn góðum hnéspörkum í Mikael. Mikael hélt Rajabov upp við búrið þar sem hann reyndi fellur en Rajabov komst frá búrinu og náði góðu kasti. Mikael komst aftur á fætur og hélt áfram að reyna við felluna en áfram varðist Rajabov vel. Rajabov náði síðan fellu alveg í lok lotunnar.

Í 2. lotu reyndi Mikael áfram að taka Rajabov niður en Rajabov svaraði með kasttilraunum sem settu Mikael úr jafnvægi. Mikael reyndi sjálfur köst og náði einu sinni að setja Rajabov á rassinn eftir fellu en Evrópumeistarinn komst strax upp. Rajabov var hættulegur standandi og henti í hraðar fléttur í lotunni en Mikael virtist missa jafnvægið á einum tímapunkti í skamma stund.

Rajabov náði að komast ofan á í gólfinu og náði fljótt bakinu. Rajabov fór undir hökuna og læsti „rear naked choke“ hengingunni en Mikael reyndi eins og hann gat að koma sér úr hengingunni. Rajabov hélt áfram að kreista, hélt hengingunni vel og þurfti Mikael að lokum að tappa út. Rajabov er því kominn í úrslit eftir sigur á Mikael og var hann einfaldlega betri bardagamaðurinn í dag.

Mikael þurfti því að sætta sig við bronsið eftir þrjá bardaga á þremur dögum. Rajabov fer í úrslit þar sem hann mætir Murad Ibragimov frá Barein og verður að segjast að Rajabov sé ansi líklegur til að bæta öðru gulli við verðlaunasafnið.

Mikael heldur heim á sunnudaginn og getur borið höfuðið hátt eftir fyrstu þrjá MMA bardagana sína á ferlinum.

Uppfært 11. september: Það fór eins og við spáðum að Otabek Rajabov tryggði sér gullið á heimsbikarmótinu í dag. Hann er því bæði Evrópu- og heimsbikarmeistari í þessum flokki. 


MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 (fös. 20:00).

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 min á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði