FRÁBÆR ÁRANGUR Á LJÓSARNÆTURMÓTI

Í gærkvöldi stigu fimm keppendur frá HR/Mjölni inn í hringinn á einu stærsta boxmóti á Íslandi, Ljósanæturmótinu í Reykjanesbæ.

Því er skemmst frá að segja að þetta kvöld var eitthvað það besta boxkvöld félagsins í 4 ár! Hópurinn taldi boxara sem allir eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni en var það ekki að sjá á okkar fólki sem æft hefur stíft síðustu vikur og mánuði fyrir þetta mót.

Davíð Már Sigurðsson (2-1) steig fyrstur Mjönismanna inn í hringinn og mætti þar Aleks frá VBC í 75kg flokki. Aleks keppti síðast á móti Bjarka Ómarssyni í Mjölni fyrir nokkru síðan og tapaði þar á split decicion. Davíð er hinsvegar að keppa sinn 3. bardaga og hefur þurft að taka sér rúmlega árs pásu frá hnefaleikum vegna meiðsla á baki. Davíð kom einbeittur inn á móti þessum sterka boxara frá Kópavogi og hélt áberandi þéttri og lokaðri vörn á móti röðum högga frá andstæðingi sínum og hleypti litlu sem engu inn. Davíð valdi höggin sín vel og skipulega og skilaði inn röð stiga með hárfínum fléttum sem smugu í gegnum vörn andstæðingsins. Davíð sigraði sinn bardaga á einróma dómaraákvörðun.

Daniel Alot (1-1) steig næstur Mjölnismanna inn í hringinn og það á móti gríðarlega öflugum boxara frá VBC, Herði Frans. Daniel sem keppti sinn 2. bardaga á áhugamannaferlinum í kvöld sýndi hreint ótrúlega takta en höfuðhreyfingar hans og fótavinna áttu sér engar hliðstæður meðal keppenda mótsins. Daniel sýndi öllum í salnum að það vill enginn verða fyrir höggum frá þessum manni. Aldrei hef ég séð annan eins höggþunga frá 69kg manni í hringnum! Okkar maður gjörsamlega valtaði yfir andstæðing sinn en það var himinn og haf á milli frammistöðu hans í fyrsta bardaga hans fyrr á þessu ári og þeirrar sem hann sýndi í kvöld. Alveg hreint ótrúlegur íþróttamaður og setti virkilega "scary statement" fyrir 69kg flokkinn fyrir komandi mót. Einróma dómaraákvörðun okkar manns í vil og klárlega langflottasti boxari mótsins.

Eiríkur Sigurðarson (0-1) steig næstur inn í hringinn á móti hinum reynda Vikari Sigurjónssyni í -81kg flokki sem hefur fjölda bardaga að baki. Eiríkur var að keppa sinn fyrsta bardaga í kvöld en gaf Vikari ekkert eftir. Eiríkur byrjaði bardagann vel með stungum sem flestar lentu í andstæðingnum sem hann fylgdi eftir með hröðum og öflugum fléttum en átti erfiðara með síðari lotur bardagans. Eiríkur var sleginn niður í annarri lotu en það hægði ekki á okkar manni sem óð í andstæðing sinn strax að lokinni yfirtalningu. Virkilega flottur fyrsti bardagi hjá okkar manni sem sýndi gríðarlega gott hjarta og barðist af hörku þrátt fyrir erfiðan seinnipart. Eiríkur sýndi að hann er sannur stríðsmaðuren okkar maður tapaði á einróma dómaraákvörðun á móti mun reyndari andstæðing. Þetta er einungis rétt að byrja hjá Eiríki.

Kristín Sif (0-1)steig svo næst í hringinn í eina kvennabardaga kvöldsins og það á móti íslandsmeistaranum sjálfum í 75kg flokki, Margréti Svavarsdóttur. Kristín sem var að keppa sinn fyrsta bardaga í kvöld stóð sig alveg hreint ótrúlega vel og kom öllum á óvart með frammistöðu sinni á móti gríðarlega efnilegri og reynslumeiri bardagakonu. Fyrsta lotan var nokkuð jöfn þar sem þær skiptust á fléttum og lentu báðar fínum höggum. Margrét virtist skríða síðan aðeins framúr í 2. lotu bardagans sem þó var nokkuð jöfn. Kristín kom síðan inn í 3.lotu bardagans með gríðarlega þungar og þéttar fléttur sem hægðu verulega á íslandsmeistaranum en Kristín lenti þungum höggum svo sást á andstæðingnum. Margrét þurfti að bakka í kjölfarið og pakka í vörn. Síðari helmingur lotunnar var síðan hnífjafn. Bardaginn endaði á Sigri Margrétar á klofinni dómaraákvörðun sem verður að teljast hreint frábær úrslit fyrir okkar konu sem var að keppa sinn fyrsta bardaga á áhugamannaferlinum. Kristín á fullt eftir og ég get hreinlega ekki beðið eftir að senda hana inn í hringinn aftur.

Mantas Le (1-0) lokaði síðan kvöldinu fyrir Mjölnisliðið með bardaga sínum á móti Arnóri Gunnari frá VBC. Aldrei hef ég séð eins yfirvegaðan og rólegan mann sem er á leið í sinn fyrsta bardaga á ferlinum. Mantas sýndi öllum að hann kom inn með plan og hélt sér við það öllum stundum bardagans. Mantas hélt sér í góðri fjarlægð frá andstæðing sínum sem byrjaði bardagann á mikilli pressu og þungum höggum. Arnór virtist samt ekki lenda mörgum af þeim þungu höggum sem hann kastaði fram en Mantas var fljótur að loka á hann með Clinch sem pirraði andstæðing hans mikið. Það nýtti okkar maður sér sem skipti aldrei skapi í bardaganum en hélt sér við sitt verkefni við að halda fjarlægð, raða inn vel völdum höggum í fléttum sem samanstóð af beinum höggum, krókum og upphöggum sem hvert af öðru skilaði hreinum og klárum stigum í bardaga sem var aldrei í hættu fyrir okkar mann. Það að þessi maður hafi verið að keppa sinn fyrsta bardaga er hreint ótrúlegt miðað við frammistöðuna. Mantas sigraði á einróma dómaraákvörðun.

í kvöld er ég ótrúlega stoltur þjálfari. Frammistaða hópsins í kvöld var frábær og ótrúlega dýrmæt fyrirmynd hnefaleikastarfsins í Mjölni! Þið eigið hrós skilið fyrir alveg hreint ótrúlega frammistöðu en það var ekki að sjá að reynslan væri ekki meiri en sú sem raun ber vitni! Ég er í alvörunni að rifna úr stolti og ég er ótrúlega þakklátur að vera þjálfari svona efnilegs hóps!! Ef þetta er frumraun ykkar í hnefaleikum þá hreinlega veit ég ekki hverju má búast vð í framhaldinu hjá ykkur í komandi bardögum! Það má ekki gleyma því að þetta er ekki eina bardagafólkið innan raða liðsins en núna í fyrsta skiptið í 4 ár er hópurinn að stækka gríðarlega mikið og á yfirborðið eru að koma alveg hreint ótrúlega efnilegir hnefaleikamenn sem hafa æft stíft og eru tilbúnir til að keppa eftir þrotlausar æfingar síðustu mánuði og ár. Árið 2017 verður gullár elsta hnefaleikafélags Íslands og þið eruð að skrifa fyrstu blaðsíður þessa nýja kafla!

Fylgist með þessu fólki. Þetta eru skrímsli.

Texti: Steinar Thors - Yfirþjálfari Box og Víkingaþreks.

 Steinar Thors


MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 (fös. 20:00).

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 min á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði