Iðkendareglur Mjölnis

1. ALLIR HAFA GAMAN OG ENGINN SLASAST - Þetta er mikilvægasta reglan í Mjölni. Allir eiga að skemmta sér, líða vel og hafa gaman og enginn á að slasast. Þó við höfum starfrækt bardagaíþróttaklúbb til fjölda ára er slysatíðnin hjá okkur afar lág. Af hverju? Vegna þess að við höfum starfsfólk, þjálfara og iðkendur sem skapa og ýta undir heilbrigt umhverfi við æfingar. Hér að neðan eru nokkrar einfaldar leiðbeiningar sem munu hjálpa þér við að forðast meiðsli og að meiða æfingafélaga þína:

a. Aldrei æfa gróft eða fantalega - Það er munur á því að æfa ákveðið og því að æfa gróft eða af fautaskap. Okkur er annt um hvert annað, við erum vinir, félagar og fjölskylda. Við viljum enga fanta í Mjölni og þeir sem fara í æfingar af fautaskap eða af hörku og óvarkárni verða beðnir um að yfirgefa félagið okkar – æfingar ganga út á að læra, ekki að meiða. Ef við þurfum að útskýra þetta nánar fyrir þér þá er það ekki góðs viti.

b. Gefið alltaf merki um uppgjöf ef þið finnið til, og verið ávallt með viðeigandi hlífðarbúnað - Smán saman munið þið þekkja muninn á óþægindum og sársauka. Gleymið öllu harðhausa bulli um að sársauki sé undanfari styrks eða geri ykkur hörð. Sársauki er skilaboð frá líkamanum um að hann sé að verða fyrir meiðslum og það er ekkert töff eða gáfulegt við að hunsa slík skilaboð. Ef þið eruð í vafa þá gefið strax skýrt merki um uppgjöf (klappmerki (tap out)/uppgjöf í boxi). Klappið snemma, klappið ákveðið og klappið á æfingafélaga ykkar ef þess er nokkur kostur, ekki á dýnurnar.

Munið einnig að vera alltaf með viðeigandi hlífðarbúnað. Þetta geta verið tannhlífar, eyrnahlífar, höfuðhlífar, legghlífar, punghlífar eða hvað annað sem við á hverju sinni.

c. Virðið alltaf uppgjafarmerki umsvifalaust - Hvort sem þið teljið ykkur vera með yfirhöndina eða ekki, ef einhver gefur merki um uppgjöf þá hættið þið strax. Engar undantekningar!

d. Öll uppgjafartök eru gerð varlega - Aðalsmerki góðra glímumanna eru að þeir geta klárað tök sín rólega. Það er vissulega tími fyrir snarpar og snöggar hreyfingar í glímunni en þegar kemur að lokastigi uppgjafartaks er það alltaf gert hægt og gætilega þannig að æfingafélaginn hafa nægan tíma til að gefast upp. Geri hann það ekki skaltu útskýra fyrir honum að hann eigi að gefa merki um uppgjöf án þessa að t.d. lásinn sé settur á að fullu. Gefist hann samt ekki upp skaltu bara sleppa lásnum.

e. Ýmsir fótalásar og mörg önnur tök eða brögð eru óheimil nema hjá mjög langt komnum keppendum gegn hvor öðrum - Fáðu leiðbeiningar hjá þjálfaranum þínum áður en þú reynir tök eða brögð sem þú ert ekki viss um hvort eru leyfileg. Gerðu engar tilraunir út í loftið með þína heilsu og annarra. Einnig er með öllu bannað að grípa í fingur, eyru, hár eða skinn. Ekki aðeins er slíkt tilgangslítið glímulega séð heldur mun það meiða og ergja æfingafélaga þína. Auk þess er það siðlaust.

 

2. SÝNDU HEILINDI - Þessi regla leggur áherslu á heiðarleika iðkenda. Kynntu þig áður en átökin byrja til að kynnast æfingafélaganum. Ef þú vilt hita upp með rólegum átökum (rólegri glímu (slow roll)/rólegu boxi (slow boxing/sparring)) vertu þá viss um að það sé gagnkvæmur skilningur milli þín og æfingafélagans að svo sé og vertu viss um að halda þig við þann hraða. Það er enginn sigurvegari í rólegum átökum. Mundu að:

a. Þú vilt ekki er vera sá sem biður æfingafélaga um að fara rólega en ferð svo skyndilega í keppnisgírinn þegar þú sérð tækifæri opnast.

b. Þú vilt ekki vera sá sem situr á hliðarlínunni og hvílir þig en biður svo einhvern sem búinn er að æfa allt kvöldið um að æfa með þér – bara svo þú eigir betri möguleika á að vinna.

Ef þú vilt takast á af fullu kappi þá segðu það strax í byrjun og þá er allt í góðu. Ef þú hefur ekki sömu reynslu og sá sem þú ert að fara að æfa með, láttu hann þá vita af því. Ekki heldur vera „dýnuhákarl“ (mat shark) og leita að „auðveldri bráð“ í salnum. Sýndu heilindi og þér mun fara örar fram.

 

3. ÞJÁLFARINN RÆÐUR FERÐINNI - Mættu tímanlega á æfingar og mundu að þjálfararnir stýra þeim. Enga sígjammandi „hliðarlínuþjálfara“ takk!

a. Ef æfing er í gangi þá er það þjálfarinn sem segir til um hvenær eigi að hvíla. Ef þú hættir að æfa til að binda beltið þitt, fá þér vatn eða gera eitthvað slíkt meðan æfingafélagar þínir halda áfram þá ertu bara að svindla á sjálfum þér. Undantekning á þessu er að sjálfsögðu ef þér líður illa, svimar eða finnur fyrir meiðslum. Þá skaltu láta þjálfarann vita af ástandinu og taka þér þá hvíld sem þú þarft til að halda heilsu.

b. Þegar þjálfarinn talar, þá hlustar þú. Það á engin truflun, samræður eða „hliðarlínuþjálfun“ að vera í gangi á meðan að þjálfarinn er að segja fólki til. Hættu því sem þú ert að gera þegar í stað, hlustaðu og farðu eftir leiðbeiningum þjálfarans. Þetta hefur ekki bara með virðingu við þjálfarann að gera heldur þína eigin framför og annarra iðkenda, sem og öryggi allra.

c. Ef einhverra hluta vegna þú telur þig ekki geta eða vilja fara að fyrirmælum þjálfarans skaltu ræða það við hann milliliðalaust. Allt starfsfólk Mjölnis er á staðnum til að aðstoða iðkendur og mun liðsinna þér af fremsta megni. Þín líðan skiptir okkur máli.

 

4. VERTU ALLTAF ÞRIFALEG/UR OG Í HREINUM FÖTUM - Við viljum enga fýlustrumpa í Mjölni, hvorki líkamlega né andlega. Þú vilt ekki vera sá/sú sem enginn vill æfa með því þú ert í óhreinum og illa lyktandi æfingafötum eða þrífur þig illa – það er lítið mál að fara í sturtu fyrir æfingu. Vertu í hreinum galla (gi) og öðrum æfingafötum, hrein/n og með vel klipptar neglur (bæði fingur- og táneglur). Ef þú hefur gleymt að þrífa fötin þín, komdu þá að minnsta hreint fram og haltu þig frá dýnunum. Ef þú ert með sár af einhverjum toga, búðu þá um það almennilega áður en þú ferð að æfa. Þetta hefur ekki bara með smekkvísi að gera heldur einnig heilbrigði iðkenda. Og auðvitað þarf ekki að taka fram að við göngum vel um æfingahúsnæðið okkar, bæði æfingasvæðin og búningsklefana. Skiljum við hlutina eins og við viljum koma að þeim.

 

5. STYDDU FÉLAGIÐ ÞITT OG SÝNDU ÞVÍ VIRÐINGU - Annað hvort ertu í Mjölni eða ekki. Ekkert japl, jaml og fuður. Ef þú ert í Mjölni þá keppir þú fyrir Mjölni (ef þú keppir á annað borð), tekur þín belti undir Mjölni og styður Mjölni af öllu hjarta. Þú spyrð ekki bara hvað Mjölnir getur gert fyrir þig heldur einnig hvað þú getur gert fyrir Mjölni. Og ef þú ert merktur Mjölni, hvort sem það er í keppnum eða almennt, þá hagar þú þér samkvæmt því, af smekkvísi og heilindum. Mundu að styrkur Mjölnis og virðing liggur hjá þér.

 

6. SEM IÐKANDI Í MJÖLNI SAMÞYKKIR ÞÚ AÐ:

  • Lána ekki öðrum aðgang þinn.
  • Fara í einu og öllu eftir tilmælum þjálfara um öryggisatriði.
  • Taka fulla ábyrgð á sjálfum þér á æfingum og í starfi Mjölnis.
  • Nota ekki kunnáttu sem þér er kennd í Mjölni við aðrar aðstæður en á æfingu nema í ýtrustu neyð.

 

BROT Á ÞESSUM REGLUM GETUR VARÐAÐ BROTTREKSTUR ÚR FÉLAGINU

MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mán., þrið., mið., fimt., og fös.: 07:00 - 22:00 (fös til 20:30)
Laugardagar: 09:45 - 15:00
Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en Gryfjan (lyftingasalurinn) er opin mán-fim til 22:00 (fös. 20:30).

Skráning á póstlista

Svæði