GUNNAR NELSON MÆTIR MAGNY Í MAÍ

GUNNAR NELSON MÆTIR MAGNY Í MAÍ
Gunnar Nelson vs Neil Magny

Farsælasti bardagamaður þjóðarinnar, Gunnar Nelson, snýr aftur í búrið 27. maí í Liverpool og lýkur þar með rúmlega 10 mánaða fjarveru hans frá keppni. Andstæðingur hans verður Neil Magny sem er númer níu á styrkleikalista UFC í veltivigt en Gunnar er sem stendur í þrettánda sæti á sama lista.

Neil Magny er þrítugur bardagamaður með 26 atvinnubardaga að baki. 20 sigra og 6 töp. Hann vann sannfærandi sigur gegn Carlos Condit á UFC 219 bardagakvöldinu í desember og sýndi þar að hann er ekkert lamb að leika við. Þetta er verðugur andstæðingur fyrir Gunnar, sem er að vonum ánægður með að vera búinn að festa andstæðing og dagsetningu fyrir næsta kaflann á  sínum ferli;

“Ég er mjög sáttur. Ég er búinn að bíða frá áramótum eftir að fá bardaga staðfestan. Ýmislegt hefur verið rætt og reynt án þess að það hafi neitt komið út úr því þannig að ég er virkilega glaður að þetta sé staðfest. Mér lýst jafnframt vel á Neil Magny. Hann er góður bardagamaður með flotta ferilsskrá. Ég er búinn að vita af honum lengi og hef haft á tilfinningunni að ég ætti eftir að mæta honum einhvern daginn þannig að ég er algjörlega undir þennan bardaga búinn,”segir Gunnar og bætir við;

“Ég er búinn að vera í lengra hléi heldur en ég ætlaði mér þannig að það ekki laust við að ég sé hungraður. Mér líður virkilega vel og ég er búinn að nýta tímann í að bæta við mig nýjum vopnum og þekkingu. Ég hef vitað í talsverðan tíma að það væri möguleiki á að ég fengi bardaga í maí, þannig að ég er búinn að stilla upp æfingabúðunum mínum. Ég fer í smá ferðalag núna yfir páskana en að því loknu þá gef ég bara allt í botn. Það eru nokkrir öflugir bardagamenn að fara að koma til landsins að æfa með mér og stærstur hluti af undirbúningnum mun fara fram í Mjölni en ég geri svo ráð fyrir að klára síðustu 1-2 vikurnar á Írlandi. Það er þægilegur fiðringur í mér og ég hlakka til næstu vikna.”

Í sínum seinasta bardaga mætti Gunnar Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio þar sem hann þurfti að lúta í lægra haldi eftir óíþróttamannslega og umdeilanlega framgöngu andstæðings síns.

“Ég er búinn að segja allt sem segja þarf um þann bardaga. Það getur allt gerst eftir að búrið lokast og ég er reynslunni ríkari. Ég á von á allt öðruvísi bardaga í maí. Ég hef þá trú að Neil Magny sé heiðursmaður og ég er sannfærður um að niðurstaða bardagans okkar verði fengin eftir settum reglum íþróttarinnar,” segir Gunnar að lokum.

Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, er búinn að vinna hörðum höndum að því að fá þennan bardaga staðfestan.

“Það hefur verið þrautarganga að fá einhvern til að samþykkja að berjast við Gunnar. Ég met þetta sem svo að það viti allir í veltivigtinni af honum og það geri sér allir grein fyrir þeim hæfileikum sem hann hefur. Þeir sem eru fyrir ofan hann á styrkleikalistanum langar að halda sinni stöðu og þeir sem eru fyrir neðan hann vilja gjarnan berjast við einhvern einhvern sem þeir eiga meiri möguleika á að sigra,”segir Haraldur og bætir við;

“Mörg nöfn hafa verið rædd og margir hafa verið spurðir hvort þeir séu til í slaginn og alltaf kemur einhver afsökun. Við erum því virkilega þakklátir að Neil Magny hafi sagt já. Hann og Gunnar eru á svipuðum aldri og á svipuðum stað á ferli sínum en þar enda síðan líkindin því þeir eru gjörólíkir bardagamenn. Magny er hávaxinn með langar hendur. Hann er fyrst og fremst “striker” en er fyrnasterkur glímumaður. Gunnar er óútreiknanlegur og óhefðbundinn, með mikinn höggþunga og frábæra gólfglímu. Þetta ætti að geta orðið frábær bardagi og er full ástæða fyrir landsmenn og í raun alla bardagaunnendur að hlakka til hans.”


MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar, miðvikudagar og föstudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:15 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 (fös. 20:00).

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 min á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði